Ásdís Björg Björgvinsdóttir – Listi yfir íslenskan námsorðaforða

Leiðbeinendur: Dr. Sigríður Ólafsdóttir og Dr. Auður Pálsdóttir

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt sterk tengsl á milli lesskilnings og orðaforða, en góður lesskilningur er forsenda farsællar námsframvindu. Komið hefur í ljós að íslenskur orðaforði er drifkraftur framfara í lesskilningi hjá íslenskum grunnskólabörnum, og á það bæði við um börn sem eiga íslensku sem móðurmál (ÍSL1) og annað mál (ÍSL2). Í íslensku tungumáli eru ótal mörg orð og því er mikilvægt að vita hvaða orð liggja til grundvallar námsárangri. Við þurfum að afla upplýsinga um það hvaða orð og hve mörg orð er gagnlegt að vinna með á hverju stigi námsins. Þar leika lykilhlutverk orð sem eru umfram algengustu orð málsins, það er námsorðaforðinn. Hluti hans er í meira og minna mæli kenndur markvisst innan hinna ýmsu námsgreina, það eru orð í lagi 3. Hins vegar eru það orð í lagi 2 sem kennurum hættir til að líta framhjá í kennslu. Orð í þessum flokki eru umfram algengustu orð íslenskunnar (lag 1) og notuð þvert á fræðasvið og gegna lykilhlutverki þegar fjallað er um margvísleg og flókin málefni. Lítil þekking nemenda á þessum orðum er ein af meginástæðum þess að þeim gengur illa að skilja lesinn texta sem síðan dregur úr færni þeirra til námsárangurs. Því er nauðsynlegt að fá upplýsingar um íslensk orð sem eru mikið notuð í margs konar textum samtímans og tilheyra lagi 2. Þegar orð eru valin til náms og kennslu er mikilvægt er að byggja á málheildum. Ensku orðtíðnilistarnir New General Service List (NGSL) og New Academic Word List 1.0 (NAWL) hafa verið þróaðir út frá völdum málheildum úr Cambridge English Corpus (CEC). NGSL inniheldur 2.800 algengustu orðin í ensku á meðan NAWL inniheldur 960 orð sem tilheyra námsorðaforða úr lagi 2. Ítarlegur orðtíðnilisti á borð við NAWL hefur hingað til ekki verið til fyrir íslenska tungu. Markmið meistaraverkefnisins var því að þróa Lista yfir íslenskan námsorðaforða (LÍNO) og komast að því hver íslenskur námsorðaforði er, orð sem mikilvægt er fyrir nemendur að þekkja. Ný málheild (MÍNO) sem liggur til grundvallar LÍNO var sett saman úr völdum málheildum Íslensku Risamálheildarinnar (RMH) og Markaðrar íslenskrar málheildar (MÍM), auk þess var bætt við námsefni sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Samtals telur MÍNO 31.680.235 lesmálsorð og eru allir textar frá þessari öld. Afrakstur þessa meistaraverkefnis er LÍNO sem telur 1.515 orð. Námsorðaforðalistinn mun nýtast nemendum hér á landi við að efla orðaforða sinn, lesskilning og ritunarfærni og samhliða verður með LÍNO mögulegt að halda lífi í íslenskum orðum með komandi kynslóðum. Verkefnið er fyrsta meistaraverkefnið af þremur sem styrkt var af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, en íslenskur orðaforði er viðfangsefni þeirra allra.

2 Thoughts to “Ásdís Björg Björgvinsdóttir – Listi yfir íslenskan námsorðaforða”

 1. Ellen Rós Hansdóttir

  Sæl Ásdís. Til hamingju með rannsókina þína 🙂
  Mér finnst þetta áhugavert viðfangsefni hjá þér og áhugavert að sjá hvernig orðaforða má almennt skipta niður í lög.
  Ein vangavelta – var einhver sérstök ástæða afhverju það voru fjögur börn spurð?

  Takk fyrir mig.
  Kv. Ellen

  1. Ásdís Björg Björgvinsdóttir

   Sæl Ellen og takk fyrir 😊
   Varðandi vangaveltur þínar að þá var aðeins spurt fjögur börn í raun vegna hentugleika þar sem BEd neminn sem framkvæmdi þá athugun þekkti til fjögurra barna á mismunandi aldri.
   Listinn verður síðar formlega forprófaður með stærri hóp grunnskólanema á mismunandi aldri.
   Kær kveðja
   Ásdís

Comments are closed.