Meistaranemar úr

Deild kennslu- og menntunarfræði

Ayse Ebru Gurdemir
Parent's views on children's portfolios: A bridge between home and preschool

Leiðbeinandi: Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir

This qualitative interview research was conducted to discover parent's views and experiences with children's portfolios in the preschool Aðalborg. The aim of the research is to improve upon the application portfolios play in giving parents insight into the preschool curriculum and goals, and to participate in an active way in assessing their child's learning and wellbeing. Parents were asked if they could monitor and assess their children's learning and wellbeing through the portfolio entries and share their experiences looking at and contributing to the portfolios with their children. Findings of the study reveal the parents' joy and appreciation of the portfolios. The parents claimed the most important feature of the portfolios is their function as a narrative tool, which children can use to describe their preschool life to their parents and vice versa. Sjá kynninguna ->

Ester Jóhanna Sigurðardóttir
„Þetta er bara djúpa laugin“: Reynsla leikskólakennara af upphafi deildarstjóraferilsins

Leiðbeinendur: Júlíana Tyrfingsdóttir og Dr. Arna H. Jónsdóttir

Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu leikskólakennara af því að hefja störf sem deildarstjórar. Tekin voru viðtöl við átta leikskólakennara sem höfðu starfað sem deildarstjórar í eitt til þrjú ár. Stuðst var við hálf opinn viðtalsramma en í samtölunum var lögð áhersla á að skoða upplifun deildarstjóranna af upphafi deildarstjóraferilsins og hvernig nám þeirra og reynsla undirbjó þá fyrir starfið. Leitast var við að fá fram sjónarhorn deildarstjóranna á lærdómsferlið sem þeir fóru í gegnum á fyrstu tímabilum í starfinu. Deildarstjórarnir sem tóku þátt í rannsókninni sögðu starfsmannamál helstu áskorun sína og reynslu mikilvæga til að takast á við slík mál. Þeir upplifðu mikilvægan undirbúning fyrir deildarstjórastarfið bæði í námi sínu og af reynslunni en fannst erfiðast að takast á við aðstæður í fyrsta skipti. Þrátt fyrir að deildarstjórarnir hafi lítið rætt um lærdómssamfélag var ljóst að þeir lögðu áherslu á einkenni þess í starfi sínu og fannst mikilvægt að stjórnendur í skólum ynnu að uppbyggingu lærdómssamfélags. Sjá kynninguna ->

Guðrún Bára Gunnarsdóttir
Skólastarf og traust í samskiptum: Viðhorf skólastjórnenda, kennara og foreldra í þremur grunnskólum

Leiðbeinandi: Dr. Friðgeir Börkur Hansen

Viðfangsefni þessarar ritgerðar er byggt á eigindlegri rannsókn á viðhorfum til trausts í skólastarfi. Gagnasöfnun byggðist á opnum einstaklingsviðtölum og rýnihópaviðtölum í þremur skólum á höfuðborgarsvæðinu. Gagna var aflað frá stjórnendum, kennurum og foreldrum. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að viðmælendur töldu að traust væri undirstaða alls starfs í grunnskólum. Þá kom fram að persónuleg og heiðarleg samskipti væru mikilvæg forsenda þess að byggja upp traust. Einnig kom fram að fagleg vinnubrögð og gott upplýsingaflæði efldu traust. Að sama skapi verða erfiðleikar í skólastarfi ef traust brestur og samskiptavandi vex sem hefur áhrif á alla starfsemi. Sjá kynninguna ->

Guðlaug Elísabet Finnsdóttir
Ég er með hugmynd! Starfendarannsókn verkefnastjóra á innleiðingu þróunarverkefnis um sköpunarsmiðjur

Leiðbeinendur: Dr. Svanborg R. Jónsdóttir og Dr. Hafdís Guðjónsdóttir

Tilgangurinn með þessari starfendarannsókn var að rýna í innleiðingu á þróunarverkefninu Austur-Vestur sköpunarsmiðjur sem var samstarfsverkefni þriggja skóla í Reykjavík. Markmið með rannsókninni var að skoða hvað einkenndi innleiðinguna og hvernig mitt hlutverk sem verkefnastjóri mótaðist í ferlinu í mínum skóla. Ég ákvað að gera starfendarannsókn til að styðja við breytingarferlið til að draga úr óvissuþáttum og tryggja varanleika breytinganna. Þannig gat ég haft bein áhrif innleiðingarferlið. Gögnin sem ég safnaði og greindi voru meðal annars færslur í rannsóknardagbók um hlutverk mitt og ígrundanir, samtöl við kennara og nemendur ásamt nótum og myndum úr vettvangsathugunum. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna mikilvægi forystunnar og heiltækrar nálgunar í þróunarverkefnum. Sjá kynninguna ->

Gerður Magnúsdóttir
Milli stúdentsprófs og heimsreisu

Leiðbeinandi Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir

Markmið þessarar rannsóknar er að skoða þann hóp ungs fólks sem velur að vinna tímabundið í leikskóla fljótlega eftir stúdentspróf. Rannsóknin var unnin með eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við níu unga einstaklinga sem starfa sem leiðbeinendur eða leiðbeinendur með stuðningi á fimm leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Við greininguna var notuð þemagreining til þess að vinna úr viðtölunum. Niðurstöðurnar sýna skýrt að áhrif foreldra á nám- og starfsval viðmælenda eru mikil og bendir allt til þess að þær skoðanir byggi mikið á hugmyndum um laun og mismikilvæg störf og menntun. Auk þessa spila fyrirmyndir stórt hlutverk  í því að viðmælendur sjá  ekki framtíðina í því að sækja í leikskólakennaranám og upplifun þeirra af leikskólaumhverfinu mótar einnig skoðanir þeirra og viðhorf. Sjá kynninguna ->

Halldóra Guðlaug Helgadóttir
Rísum eins og fuglinn Fönix: Leið að lærdómssamfélögum í leikskólum

Leiðbeinandi: Dr. Svava Björg Mörk

Markmið rannsóknarinnar er að skoða styrkleika og veikleika lærdómssamfélaga fimm leikskóla á Suðurlandi, ásamt því að leita leiða til að styrkja þau enn frekar. Rannsóknin byggir á hálfopnum viðtölum við fimm leikskólastjóra og þrjá verkefnastjóra og skoðuð upplifun þeirra á þátttöku í þróunarverkefninu Snemmtæk íhlutun – mál og læsi. Gögnin voru þemagreind með það markmið að reynsla og upplifun þátttakenda kæmi fram í niðurstöðum. Helstu niðurstöður gefa vísbendingar um að lærdómssamfélög leikskólanna hafi styrkst við þátttöku í þróunarverkefninu. Sjá kynninguna ->

Hjördís Jónsdóttir
Sýn og áherslur skólastjóra á velfarnað kennara í grunnskólum

Leiðbeinandi: Dr. Guðrún Ragnarsdóttir

Markmiðið með rannsókninni er að skoða hverjar áherslur skólastjóra í grunnskólum eru á velfarnað kennara. Viðtöl voru tekin við átta grunnskólastjóra á höfuðborgarsvæðinu til að skoða sýn þeirra og áherslur á velfarnað kennara og sinn eigin. Til þess að ramma rannsóknina inn var PERMA velfarnaðarkenning Martin Seligmans (2011) notuð til að greina gögnin. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að skólastjórar eru að gera ýmislegt sem snýr að velfarnaði kennara en þær áherslur falla ekki alveg að PERMA-velfarnaðarkenningunni. Þær leiðir sem farnar eru koma að einhverju leyti inn á PERMA-þættina fimm, en þátturinn um jákvæð félagsleg tengsl kom þar sterkast fram. Önnur þemu utan PERMA-kenningarinnar voru hugmyndir stjórnenda um velfarnað, stefnumótun og stuðningur við velfarnað og ábyrgð skólasamfélagsins á velfarnað en þau skipta einnig miklu máli þegar kemur að velfarnaði. Fram kom í niðurstöðum að skólastjórar í grunnskólum standa frammi fyrir áskorunum við að mæta breyttum þörfum skólasamfélagsins sem og starfi kennara. Sjá kynninguna ->
Hrefna Böðvarsdóttir
Sögur barna: Þróun starfshátta til eflingar hlustunarskilnings og tjáningarfærni leikskólabarna

Leiðbeinandi: Dr. Sigríður Ólafsdóttir

Markmið þessarar starendarannsóknar var að þróa lærdómssamfélag starfsmanna í því skyni að efla leikskólastarf með sögum og fjölga þannig tækifærum tveggja og þriggja ára leikskólabarna til að efla hlustunarskilning sinn og tjáningarfærni. Lögð var áhersla á að segja börnunum sögur á fjölbreyttan hátt í gegnum gagnkvæm tjáskipti og leikrit með sögusviði og brúðum. Börnunum var síðan gefinn kostur á tíma og rými til tjáningar og leiks með fjölbreyttum efnivið sem tengdist sögunum. Eftir því sem leið á rannsóknina varð starfsfólk í síauknum mæli einhuga um mikilvægi þess að gefa börnum ríkuleg tækifæri til að efla hlustunarskilning sinn og tjáningarfærni, auk þess sem sögur léku sífellt stærra hlutverk í leikskólastarfinu. Í tjáningu barnanna mátti greina góðan skilning á þeim sögum sem þeim voru sagðar auk þess sem sögurnar endurspegluðust í leik þeirra. Greina mátti í tjáningarfærni barnanna að þau höfðu beitt virkum hlustunarskilningi í sögustundunum. Sjá kynninguna ->
Helen Rose Philip
Integration of ‘Mindfulness’ into Preschool Practices: Way to Enhance Children’s and Educator’s well-being

Leiðbeinandi: Bryndís Jóna Jónsdóttir

Markmið þessarar eigindlegu rannsóknar er að skoða hvernig leikskóli á höfuðborgarsvæðinu innleiddi núvitund inn í daglegt starf ásamt því að skoða viðhorf starfsfólks um áhrif þess á velfarnað barnanna og þeirra sjálfra. Þátttakendur voru fjórir starfsmenn og tuttugu börn í leikskólanum. Niðurstöður sýna að til að innleiða núvitund markvisst inn í skólastarfi er mikilvægt að byrja á að kynna hana fyrir starfsfólkinu. Megin niðurstaðan rannsóknarinnar gefur til kynna að sé vel að innleiðingu núvitundar í leikskóla staðið þá geti hún haft jákvæð áhrif á velfarnað bæði starfsfólks og barna en frekari rannsókna er þörf á þessum vettvangi. Sjá kynninguna ->

Íris Helga Gígju Baldursdóttir
Markþjálfun: Leið að aukinni starfsánægju og bættri líðan deildarstjóra leikskóla

Leiðbeinandi: Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir

Rannsóknin er starfendarannsókn þar sem þátttakendur voru fjórir deildarstjórar í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Gagnaöflun fólst í að hver deildarstjóri mætti í þrjú markþjálfunarsamtöl en auk þess var rýnt í fyrirliggjandi gögn í formi viðhorfskannana sem lagðar voru fyrir í leikskólanum. Niðurstöður benda til þess að markþjálfunarsamtöl séu mjög góð viðbót við hin hefðbundnu starfsmannasamtöl með annarri nálgun og ólíkri uppbyggingu. Þar fái starfsmaðurinn aukið vægi í persónulegri þróun sem og starfsþróun, stýri algjörlega för með umræðuefni og hvaða efnistök hann kjósi að einblína á hverju sinni. Sjá kynninguna ->

Jóhanna Stella Oddsdóttir
Mat í leikskólastarfi: Sjónarmið barna

Leiðbeinandi: Dr. Sara Margrét Ólafsdóttir

Meistaraverkefnið sem hér verður fjallað um samanstendur af fræðilegri greinargerð um Matsbók barnsins sem er matsaðferð fyrir leikskóla til að auka þátttöku barna í leikskólastarfinu. Meginhugsun verkefnisins er að raddir barna fái meiri hljómgrunn í leikskólastarfi þar sem börn eru getumiklir einstaklingar og eiga að hafa eitthvað að segja um nám sitt. Í greinargerðinni er fjallað um mat á námi barna í leikskóla, þátttöku barna, sjónarmið þeirra og lýðræði í leikskólum. Verkefnið tekur því mið af áherslum aðalnámskrár leikskóla um að börn eigi að fá tækifæri til þess að taka virkan þátt í leikskólastarfinu og lýðræði er þar einn af grunnþáttum menntunar. Auk þess er byggt á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem kveður á um að börn eigi rétt á að tjá sig um málefni sem hafa áhrif á þeirra daglega líf. Sjá kynninguna ->
Júlía Guðný Hreinsdóttir
Baráttusaga íslenska táknmálsins: Ástæður og áhrif lagalegrar viðurkenningar

Leiðbeinendur: Dr. Karen Rut Gísladóttir og Dr. Hafdís Guðjónsdóttir

Viðfangsefni þessarar rannsóknar er baráttan fyrir viðurkenningu á íslensku táknmáli og hvaða áhrif viðurkenningin hefur haft á stöðu táknmálsins í dag. Tilgangurinn er að safna saman og skrásetja baráttusögu döff fyrir lagalegri viðurkenningu á íslensku táknmáli. Markmiðið er að skilja hvað liggur að baki baráttusögu döff fyrir viðurkenningu á íslenska táknmálinu sem fullgildu tungumáli. Þátttakendur í rannsókninni eru allir döff og táknmálstalandi fullorðnir einstaklingar. Safnað var eigindlegum viðtalsgögnum, sem varpa ljósi á viðhorf og skynjun þátttakendanna sjálfra á tímabilinu 1983–2017. Viðmælendur sögðu frá baráttunni fyrir viðurkenningu táknmálsins þar til sett voru lög, sem gera táknmálið jafnhátt íslensku, árið 2011. Niðurstöður þessarar rannsóknarinnar dró fram að lögin hafi ekki staðist væntingar fólks með táknmál að móðurmáli. Lögin gáfu þeim skilning og viðurkenningu á því hver þau eru, en þau réttindi sem búist hafði verið við að fylgdu í kjölfarið eins og aðgengi að samfélaginu, og félagsleg og atvinnutengd túlkun vantar enn. Döff finnst þau því ekki njóta borgaralegra réttinda til jafns við aðra vegna hindrana sem skapast af því að tala íslenskt táknmál. Sjá kynninguna ->
Ragnhildur Ólafsdóttir
Að stjórna jafningjum: Frammistöðusamtöl

Leiðbeinandi: Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á frammistöðusamtöl deildarstjóra leikskóla við starfsfólk deildar. Um er að ræða starfendarannsókn sem gerð var í leikskólanum Hnoðraholti sem er einn af leikskólum Hjallastefnunnar. Gagna var aflað með rannsóknardagbókum deildarstjóra, endurgjöf rannsóknarvinar, samræðum deildarstjóra og viðtölum við deildarstjóra. Með viðtölunum leikskólastjóra við deildarstjórana var leitað eftir upplýsingum um reynslu þeirra af fjórum stuttum og reglulegum frammistöðusamtölum við starfsfólk deildarinnar. Helstu niðurstöður benda til þess að reynsla deildarstjóra af reglulegum frammistöðusamtölum auki ábyrgðatilfinningu þeirra sem stjórnenda og að þeir tengist samstarfsfólki betur og skilji fremur sýn þeirra á starfið. Sjá kynninguna ->
Rannveig Anna Ólafsdóttir
Upplifun leikskólastjóra af stuðning frá sveitafélagi „Auðvelt að lofa, örðugt að efna“

Leiðbeinandi: Dr. Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á þann stuðning sem leikskólastjórar telja sig þurfa, hver upplifun þeirra er af stuðningi frá sveitafélaginu, og hvaða stuðningur stendur þeim til boða. Eigindlegri rannsóknaraðferð var beitt við rannsóknina og voru tekin sjö viðtöl við leikskólastjóra, fjóra sem starfa á höfuðborgarsvæðinu og þrjá á landsbyggðinni. Leikskólastjórarnir eru með mis langa reynslu í starfi sem leikskólastjórar sem spannar frá einu ári til þrjátíu og níu ára. Niðurstöður sýna að leikskólastjórar á landsbyggðinni upplifa meiri stuðning frá sveitafélaginu heldur en þeir sem starfa á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa mikilvægar vísbendingar um að skortur sé á stuðningi til leikskólastjóra innan höfuðborgarsvæðisins, en vel sé stutt við leikskólastjóra á landsbyggðinni. Því má draga þá ályktun að sveitafélög þurfa að auka stuðning til leikskólastjóra og sá stuðningur verði að vera fjölbreytilegur til þess að mæta mismunandi aðstæðum og áskorunum. Sjá kynninguna ->

Rakel Ýr Isaksen
Skuldbinding leikskólakennara til vinnustaðar

Leiðbeinendur: Ingileif Ástvaldsdóttir og Dr. Kristján Ketill Stefánsson

Markmið rannsóknar var að greina tengsl hvataþátta (sem framkalla starfsánægju leikskólakennara) og hollustuþátta (sem geta valdið óánægju í starfi) við skuldbindingu leikskólakennara til vinnustaðar. Rannsóknaraðferð var megindleg, rýnt var í fyrirliggjandi gögn og þau greind með lýsandi tölfræði og fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Tvær stefnutilgátur voru prófaðar, annars vegar að: Leikskólakennarar sem upplifa starfsánægju eru líklegir til að sýna skuldbindingu til vinnustaðar. Hins vegar að: Leikskólakennarar sem upplifa mikið álag í starfi eru ólíklegir til að sýna skuldbindingu til vinnustaðar. Niðurstöður rannsóknar bentu til að hvataþættirnir: starfsandi, jákvæðar áskoranir í starfi og ræktun mannauðs ýti undir starfsánægju og gegni lykilhlutverki fyrir skuldbindingu leikskólakennara til vinnustaðarins. Sjá kynninguna ->
Steinunn Huld Gunnarsdóttir
Félagsfærni barna í leikskólum: „Við höfum trú á börnum“

Leiðbeinandi: Dr. Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvaða viðhorf leikskólakennarar hafa til félagsfærni barna ásamt því hvaða leiðir þeir nýta sér til þess að efla hana meðal barna. Leikskólakennarar hafa aðgang að mismunandi námsefni í leikskólum og hafa ólíka þekkingu og nálgun þegar kemur að námsefni. Því var skoðað með hvaða hætti leikskólakennarar styðja leikskólabörn í félagsfærni. Eigindleg rannsóknaraðferð var notuð til að vinna þessa rannsókn. Tekin voru einstaklingsviðtöl við sjö leikskólakennara á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar sýna að viðmælendur nýttu sína þekkingu til þess að efla félagsfærni í sínu starfi og voru börn hvött í ýmsum aðstæðum til þess að byggja upp frekari þekkingu meðal jafningja. Sjá kynninguna ->

Saga Hilma Sverrisdóttir
Þjóðsögur fyrir börn: námsefni ætlað leikskólastigi

Leiðbeinandi: Dr. Arngrímur Vídalín Stefánsson

Markmið þessa lokaverkefnis er að gera námsefni úr þjóðsögum til að efla málþroska barna og að þau öðlist dýpri skilning á íslenskri menningu. Með læsistengdri skynjun verða þjóðsögurnar sýnilegri fyrir börnin og þau öðlast meiri reynslu af atburðarásinni. Valdar voru átta sögur úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar sem henta börnum á leikskólaaldri. Reynt var að velja lítt þekktar þjóðsögur frá mismunandi landshlutum sem fela í sér einhvern boðskap. Unnið var með hverja þjóðsögu í að minnsta kosti eina viku og hún sögð börnunum með leikrænum tilþrifum. Stuðst var við samræðulestur þar sem börnin voru hvött til að taka þátt í að segja söguna. Orðaspjallsaðferðin var notuð til að leggja inn orð. Stuðst var við heimspekilegar samræður til að velta fyrir sér boðskap sögunnar. Þær setningar í textanum sem vekja upp spurningar eru skáletraðar og dæmi um spurningar í heimspekikaflanum. Að lokum koma kveikjur að verkefnum sem sýna hvernig hægt er að vinna þjóðsögurnar út frá læsistengdri skynjun. Sjá kynninguna ->

Sigurbjörg Lára Kristinsdóttir
Hafa börn rödd, ef enginn hlustar? Að fylgja hugmyndum barna í leikskólastarfi

Leiðbeinandi: Dr. Sara Margrét Ólafsdóttir

Markmið rannsóknarinnar er að leita svara við því hvernig leikskólakennari getur hlustað betur á raddir barna og fundið leiðir til að fylgja hugmyndum þeirra eftir. Rannsóknin er starfendarannsókn, þar sem notaðar voru fjölbreyttar aðferðir við gagnaöflun. Þau gögn sem rannsóknin byggir á eru rannsóknardagbók, vettvangsathugun, uppeldisfræðilegar skráningar og ljósmyndir. Rannsóknin var framkvæmd á deild í leikskóla sem rannsakandi hefur unnið á undanfarin tvö ár. Meginniðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þær nálganir, sem leikskólakennarinn notaði í starfi með börnunum, höfðu áhrif á hvernig hann hlustaði á raddir þeirra. Þá bentu niðurstöðurnar einnig til þess að skipulagning námsumhverfis hafi áhrif á tækifæri barnanna til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri. Sjá kynninguna ->

Sesselja Ósk Vignisdóttir
Góð leiðsögn – gulls í gildi: Upplifun og reynsla kennaranema og nýliða

Leiðbeinandi: Dr. Súsanna Margrét Gestsdóttir

Í þessari rannsókn er fjallað um þá leiðsögn sem annars vegar fimmta árs kennaranemar og hins vegar nýliðar í kennslu fá í þeim grunnskólum sem þeir starfa við. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á þá leiðsögn sem fimmta árs kennaranemar og nýliðar í kennslu fá í þeim skólum sem þeir nema í eða starfa við. Rannsóknin fór fram í janúar og febrúar 2022 og var gagna aflað með hálfopnum viðtölum við átta viðmælendur, fjóra fimmta árs kennaranema og fjóra nýliða í kennslu, í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að flestir fimmta árs kennaranemar fá einhverja leiðsögn á starfsári sínu þó hún sé misjöfn milli skóla og einnig misjafnt hver veitir hana. Sjá kynninguna ->
Sulakshna Kumar
Reynsla foreldra af erlendum uppruna af þátttöku í leikskólasamfélagi

Leiðbeinandi: Dr. Sara Margrét Ólafsdóttir

Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á reynslu foreldra af erlendum uppruna af þátttöku í leikskólastarfi. Notaðar voru blandaðar rannsóknaraðferðir þ.e. bæði megindlegar og eigindlegar. Megindleg netkönnun gaf ákveðna sýn á reynslu 40 foreldra af erlendum uppruna og leiddi til þróunar viðtalsramma sem veitti enn dýpri skilning á viðfangsefninu. Í framhaldinu voru tekin einstaklingsviðtöl við fimm foreldra sem hafa ólíkan bakgrunn og menningu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að reynsla foreldra af erlendum uppruna af þátttöku í leikskólastarfi sé mismunandi og hafa menning einstaklinga, tungumálakunnátta og samfélagsleg staða áhrif þar á. Sjá kynninguna ->

Soffía Ámundadóttir
,,Við sættum okkur ekki við ofbeldi”: Reynsla stjórnenda í grunnskólum Reykjavíkur

Leiðbeinandi: Dr. Brynja E. Halldórsdóttir

Rannsóknin felst í því að athuga þátt stjórnenda og þeirra upplifun í því ferli að styðja nemendur sem beita ofbeldi í skólastarfi. Tekin voru hálfopin viðtöl við sex reynslumikla stjórnendur á aldrinum 45 – 65 ára. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að stjórnendur upplifa aukningu ofbeldis og alvarlegri birtingarmyndir samhliða ákveðnu úrræðaleysi. Fram kemur að þeir upplifa sig stundum óörugga og vonlitla í krefjandi aðstæðum með nemendum. Stjórnendur segja erfiðleika nemenda sem beita ofbeldi margþætta og þörf fyrir heildrænan stuðning og lausnir. Stjórnendur telja að það skorti miðstýrða verkferla, viðbragðsáætlanir, markvissari skráningu og öflugari fræðslu fyrir aðila skólasamfélagsins. Þeir upplifa að starfsumhverfi skóla sé að ýmsu leyti ófullnægjandi, umræða á samfélagsmiðlum óvægin og flókið ferli að vinna úr grófum ofbeldismálum. Sjá kynninguna ->

Share this: